Forsíða            Fréttir            Stefnan            Hreyfingin            Á döfinni
Samþykktir

Félagið heitir Hreyfingin og er starfsvæði þess Ísland. Heimili Hreyfingarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

Hreyfingin skal lúta lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Öll fjármál Hreyfingarinnar skulu vera opinber og aðgengileg almenningi.

 

Markmið

1. Markmið Hreyfingarinnar er að koma málefnum fyrirliggjandi stefnuskráar í framkvæmd og hún skal leggja sig niður og hætta störfum þegar markmiðunum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð. Þessari grein má einungis breyta með samþykki að lágmarki 9/10 atkvæða á landsfundi.

2. Aukamarkmið Hreyfingarinnar er að aðstoða grasrótarhreyfingar á Íslandi.

3. Hreyfingin býður fram til alþingiskosninga til að ná fram markmiðum sínum.

 

Skipulag

Framkvæmdastjóri

1. Þegar fjárráð leyfa má Hreyfingin ráða framkvæmdastjóra.

Starfslýsing framkvæmdastjóra er eftirfarandi:

Framkvæmdastjóri hefur umsjón með daglegum rekstri og fjármálum Hreyfingarinnar bæði uppgjörum og áætlunum.

Framkvæmdastjóri boðar til og skipuleggur fundi  Hreyfingarinnar sem og félagsstarf og viðburði á landsvísu.

Framkvæmdastjóri sér um starfsmannahald og starfar með kosningastjóra í aðdraganda kosninga.

Framkvæmdastjóri er í tengslum við grasrótarhópa og hjápar þeim að koma boðskap sínum á framfæri:

- við þingmenn Hreyfingarinnar.

- við þingmenn annarra stjórnmálaafla.

- við aðra grasrótarhópa.

- við stofnanir og fyrirtæki eftir því sem þurfa þykir.

- við almenning í gegnum fjölmiðla og rafræna miðla.

Framkvæmdastjóri aðstoðar eins og hægt er grasrótarhópa sem eiga málefnalega samleið með Hreyfingunni með því að útvega þeim fundaraðstöðu og annað sem þarf og er á færi Hreyfingarinnar auk þess að miðla upplýsingum um starfsemi annarra grasrótarhópa.

Framkvæmdastjóri heldur utan um nafnalista og hópa sem vilja starfa með Hreyfingunni á einn eða annan hátt.

2. Ekki skal haldið sérstaklega utan um félagaskrá Hreyfingarinnar.)

3. Stjórn Hreyfingarinnar sér um ráðningu framkvæmdastjóra að höfðu samráði við kjarnahóp og þinghóp. Hann skal ráðinn á faglegum forsendum ofangreindrar starfslýsingar.

4. Framkvæmdastjóri er talsmaður Hreyfingarinnar og skal gæta trúnaðar gagnvart Hreyfingunni í störfum sínum.

5. Framkvæmdastjóri hefur ekki atkvæðisrétt í neinu máli sem kosið er um á vegum Hreyfingarinnar og skal því leitast við að vera hlutlaus í öllum málum.

 

Kjarnahópur

1. Kjarnahópur er samstarfshópur Hreyfingarinnar og þinghóps Hreyfingarinnar.

2. Starfsemi kjarnahóps er skipulögð þegar nýtt þing kemur saman. Kjarnahópur skal funda minnst einu sinni í mánuði.

3. Tveir einstaklingar úr hópi þingmanna, stjórnarmanna og kjarnahóps boða nýja félaga í kjarnahóp.

4. Æskilegt er að virkir þátttakendur Hreyfingarinnar auk þingmanna Hreyfingarinnar séu í kjarnahópi.

5. Hlutverk kjarnahóps er meðal annars að aðstoða við að koma áherslumálum Hreyfingarinnar á framfæri og taka þátt í að móta stefnu í þeim málum sem ekki koma fram í stefnuskrá Hreyfingarinnar, en einnig að vera til ráðgjafar og leiðbeininga á báða bóga.

6. Kjarnahópur gætir trúnaðar í störfum sínum sé þess óskað.

 

Stjórn

1. Í stjórn Hreyfingarinnar eru fjórir aðalmenn, auk tveggja varamanna, ásamt einum þingmanni ef þingstyrkur er fyrir því. Þingmennirnir skulu skipta jafnt með sér stjórnarsetu eitt ár í senn. Þingmaðurinn skal vera formaður stjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

Þingmenn og fyrstu varaþingmenn skulu ekki taka þátt í kjöri til stjórnar. Nú nær stjórnarmaður kjöri til þingmennsku þá skal varamaður taka sæti hans. Þurfi að fylla fleiri en tvö sæti í stjórn þá skal velja þá til bráðabirgða á fundi kjarnahóps fram að næsta landsfundi.

2. Ef ekki er starfandi framkvæmdastjóri þá sér stjórn um störf hans, samkvæmt samþykktum þessum, eftir því sem við verður komið.

3. Stjórnin skal hittast minnst einu sinni í mánuði. Til stjórnarfundar skal boða alla stjórnarmenn og varamenn með minnst sólarhrings fyrirvara.

4. Stjórn skal bera ábyrgð á fjárreiðum Hreyfingarinnar, skuldbindingum hennar og fullnustu þeirra. Stjórnin skal ekki fela öðrum en framkvæmdastjóra fjárreiður eða ábyrgð á rekstri Hreyfingarinnar.

5. Til að ákvarðanir stjórnarfundar séu lögmætar skal að lágmarki 3/5 hluti stjórnar sitja fundinn. Stjórnin skal leitast við, eftir fremsta megni, að vera sammála í niðurstöðum sínum. Náist ekki samstaða um mál skal því frestað til næsta stjórnarfundar og þá skal málið afgreitt.

6. Stjórnin skal gæta trúnaðar gagnvart Hreyfingunni í störfum sínum.

7. Æskilegt er að stjórnarmenn sitji ekki lengur í aðalstjórn en fjögur ár samfellt. Stjórnarseta skal vera launalaust sjálfboðastarf án nokkurra fríðinda. Leitast verður við að jafna ferðakostnað ef fjárráð leyfa.

8. Stjórnarmenn Hreyfingarinnar eru hvorki opinberir talsmenn hennar né stefnumótandi afl innan hennar.

 

Nefndir

1. Landsfundarnefnd er eina fastanefnd Hreyfingarinnar. Öllum er heimilt að taka þátt í henni. Landsfundarnefnd skal vinna með framkvæmdastjóra að skipulagningu landsfundar.

2. Þeir sem vilja starfa að stefnumálum Hreyfingarinnar eða taka þátt í innra starfi hennar skulu njóta stuðnings framkvæmdastjóra við störf sín. Hópstjóri hvers hóps skal vera aðili í kjarnahópi.

3. Hópar, eða meðlimir hópa, tengdir Hreyfingunni eru ekki talsmenn hennar.

 

Landsfundur

1. Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Hreyfingarinnar. Allir sem hafa kosningarétt samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis hafa seturétt, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt á landsfundi Hreyfingarinnar.

Þessari grein má einungis breyta með samþykki að lágmarki 9/10 atkvæða á landsfundi.

2. Halda skal landsfund árlega. Boða skal til hans með minnst þriggja vikna fyrirvara. Komi upp óvenjulegar aðstæður má stytta þann tíma niður í eina viku. Á landsfundi skal taka fyrir hefðbundin aðalfundarstörf.

Á landsfundi skal kosið um hvort Hreyfingin verði lögð niður og nægja tveir þriðju hlutar atkvæða til þess. Að öðru leyti setur framkvæmdastjóri dagskrána í samstarfi við landsfundarnefnd Hreyfingarinnar.

Í landsfundarboði skal koma fram dagskrá fundar og auglýsing eftir breytingartillögum á samþykktum þessum sem leggja á fyrir fundinn.

Landsfundarnefnd skal boða til landsfundar í samvinnu við framkvæmdastjóra.

Landsfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

3. Boða skal til aukalandsfundar óski tveir stjórnarmenn eftir því.

Einnig er hægt að kalla fram aukalandsfund með undirskriftum sem telja 7% af atkvæðafjölda á bak við þingmenn Hreyfingarinnar.

Reglur um aukalandsfund eru samhljóða reglum um landsfund nema óheimilt er á aukalandsfundi að breyta samþykktum þessum.

Aukalandsfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

4. Til landsfundar eða aukalandsfundar skal boða með tilkynningu á vefsíðu Hreyfingarinnar með tölvupósti á alla skráða netfangalista á vegum Hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum prentmiðli.

Stjórn hefur heimild til að fresta landsfundi eða aukalandsfundi um viku frá auglýstri dagsetningu.

5. Stjórnarkjör: Hver kjósandi skal skrifa nöfn fjögurra eða færri frambjóðenda til stjórnar á kjörseðil. Atkvæði skulu talin fyrir opnum tjöldum. Þeir fjórir sem hljóta flest atkvæði skulu teljast rétt kjörnir í stjórn. Næstu tveir að atkvæðavægi taka sæti í varastjórn. Allir sem hafa kosningarétt samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis geta gefið kost á sér til setu í stjórn.

 

Þinghópur

1. Hlutverk þingmanna er að vinna að stefnumálum Hreyfingarinnar á Alþingi.

2. Þingmenn skulu í störfum sínum leitast við að vera í tengslum við þau grasrótaröfl sem hafa með viðkomandi málaflokk að gera.

 

Starfsfólk

1. Framkvæmdastjóri skal ráðinn þegar fjárráð leyfa til að sjá um daglegan rekstur Hreyfingarinnar auk annarra verkefna sbr. starfslýsingu. Framkvæmdastjóri getur ráðið starfsmenn í samráði við stjórn. Allir trúnaðarmenn Hreyfingarinnar (þ.m.t. þingmenn, stjórn og framkvæmdastjóri) skulu gera grein fyrir tengslum sínum við fólk og fyrirtæki sem þiggja greiðslu frá Hreyfingunni.

2. Stjórn Hreyfingarinnar skal semja við framkvæmdastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Framkvæmdarstjóri skal semja við annað starfsfólk um laun sem skulu þó eigi vera lægri en einum og hálfum launum lægsta taxta ríkisstarfsmanna og ekki hærri en þrefaldur sami taxti.

 

Alþingiskosningar

1. Hlutverk frambjóðenda til alþingiskosninga er að koma fyrirliggjandi stefnumálum Hreyfingarinnar á framfæri samkvæmt gildandi lögum um kosningar.

2. Kosningastjóri skal ráðinn á sama hátt og framkvæmdastjóri, eins fljótt og auðið er þegar boðað hefur verið til kosninga. Stjórnin semur við kosningastjóra um laun sem skulu þó eigi vera hærri en þrefaldur lægsti taxti ríkisstarfsmanna.

3. Allir kjörgengir Íslendingar geta gefið kost á sér á framboðslista í hvaða kjördæmi sem er. Framboðsfrestur rennur út átta vikum áður en skila þarf framboðslistum til kjörstjórna. Þegar framboðsfrestur rennur út skal kosningastjóri kanna í hvaða kjördæmi og sæti frambjóðendur vilja bjóða sig fram og gera drög að framboðslista eftir þeirra óskum.

Eigi síðar en sjö vikum fyrir kosningar skal kosningastjóri boða til opins fundar sem ákveður endanlega uppröðun framboðslistana. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundar og drög að framboðslistum. Á fundinn skal boða með tilkynningu á vefsíðu Hreyfingarinnar, með tölvupósti á alla skráða netfangalista á vegum Hreyfingarinnar og með auglýsingu í að minnsta kosti einum útbreiddum prentmiðli. Allir sem hafa kosningarétt samkvæmt gildandi lögum um kosningar til Alþingis hafa þar auk seturéttar, málfrelsi, tillögurétt og kosningarétt.

Við ákvörðun á uppröðun framboðslista skal fundurinn starfa í anda jafnræðis hvað varðar kyn, aldur og búsetu. Ef alþingiskosningar bera brátt að má kosningastjóri, í samráði við stjórn, hliðra til tímamörkum eins og nauðsyn krefur.

Þessari grein má einungis breyta með einróma samþykki landsfundar.

Dagskrá fundar sem ákveður framboðslista skal vera:

1. Kosning fundarstjóra

2. Kynning á drögum framboðslista

3. Umræður um uppröðun framboðslista

4. Breytingar á framboðslistum

5. Kosning um framboðslista

 

Fjárreiður

1. Hreyfinguna má ekki skuldseta með lántökum. Þó má taka skammtímalán ef algerlega er tryggt að tekjur Hreyfingarinnar geti staðið undir því.

2. Framkvæmdastjóri Hreyfingarinnar skal gera fjárhagsáætlun um nauðsynleg fjárútlát og fjárskuldbindingar Hreyfingarinnar á komandi almanaksári og bera undir stjórn. Öllu fé Hreyfingarinnar skal varið í samræmi við tilgang hennar.

3. Bókhald Hreyfingarinnar skal vera opið öllum og sýna hverjir styrkja Hreyfinguna.

4. Þeir sem fara með fjárreiður Hreyfingarinnar skulu ávallt leita tilboða sem víðast. Öll fjárútlát og fjárskuldbindingar, umfram upphæð sem miðast við lægsta launataxta ríkisstarfsmanna, þurfa undirskrift framkvæmdastjóra og gjaldkera.

 

Félagsslit

1. Þegar markmiðum Hreyfingarinnar er náð eða augljóst er að þeim verði ekki náð mun Hreyfingin hætta starfsemi og hún lögð niður. Þessari grein má ekki breyta nema með einróma samþykki landsfundar.

2. Ákvörðun um slit Hreyfingarinnar verður tekin á landsfundi með atkvæðum að minnsta kosti 2/3 hluta fundarmanna. Við slit Hreyfingarinnar skal skila afgangsfé til ríkissjóðs, nema 9/10 hlutar landsfundarfulltrúa samþykki annað.

 

Lagabreytingar

1. Samþykktum Hreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi.

Breytingartillaga telst samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi nema önnur skilyrði séu tiltekin í samþykktum þessum.

2. Allar tillögur til breytinga á lögum þessum skulu sendar til stjórnar eigi síðar en tveimur vikum fyrir landsfund. Allir kjörgengir Íslendingar geta lagt fram breytingartillögur á samþykktum þessum. Stjórn skal sannanlega birta breytingartillögurnar á vefsíðu Hreyfingarinnar og með skeyti á alla á skráðum netfangalistum á vegum Hreyfingarinnar eigi síðar en tíu dögum fyrir þann landsfund sem þær skulu teknar fyrir á. 

 
Senda á Facebook

Hvað getum við gert?